Fótbolti

Jóhann Berg: Erum ekkert saddir þótt við höfum farið á EM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jóhann Berg lék einn sinn besta landsleik í kvöld.
Jóhann Berg lék einn sinn besta landsleik í kvöld. vísir/andri marinó
Jóhann Berg Guðmundsson átti skínandi góðan leik þegar Ísland lagði Tyrkland að velli með tveimur mörkum gegn engu í kvöld. Ísland er nú komið með sjö stig í I-riðli undankeppni HM 2018.

„Það er gríðarlega mikilvægt að taka sex stig í þessum tveimur heimaleikjum. Við erum nokkuð góðir á heimavelli og höfum ekki tapað í 13 leikjum hér,“ sagði Jóhann Berg í samtali við Vísi eftir leik.

Íslenska liðið byrjaði leikinn af miklum krafti og hefði getað skorað tvö mörk á fyrstu fimm mínútum leiksins.

„Við vissum að ef við myndum vinna baráttuna myndum við vinna þennan leik. Við hefðum átt að skora fleiri mörk í fyrri hálfleik og gjörsamlega klára þetta. Þeir sköpuðu sér ekki mörg færi og mér fannst við vera með þetta allan tímann,“ sagði Jóhann Berg sem kvaðst nokkuð sáttur með eigin frammistöðu í leiknum.

„Ætli ég hafi ekki verið ágætur í dag. Hver einn og einasti maður í liðinu átti frábæran leik og það er það sem þarf í liði eins og okkar.“

Jóhann Berg og félagar fara ekki leynt með hvert markmið þeirra er: að komast til Rússlands þar sem HM fer fram eftir tvö ár.

„Okkar markmið er að komast á HM, hvernig svo sem við gerum það. Við erum ekkert saddir þótt við höfum farið á EM eins og ég held að allir sjái. Við viljum meira og þannig er metnaðurinn í þessum hópi. Það hlýtur að vera draumur allra leikmanna að fara á HM,“ sagði Jóhann Berg.

„Við höfum sýnt að við eigum séns í hvern sem er. Við sýndum það á EM og í þessari undankeppni. Við erum óhræddir.“

Kantmaðurinn öflugi átti sem fyrr sagði frábæran leik. En hefði hann viljað fullkomna frammistöðuna með marki?

„Jú, það hefði verið gaman. Ég man ekki hvenær ég skoraði síðast með landsliðinu. En mér er alveg sama svo framarlega sem við vinnum leiki,“ sagði Jóhann Berg að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×