Riccardo Montolivo fyrirliði AC Milan verður ekki með liðinu næstu sex mánuðina eftir að hafa gengist undir krossbandsaðgerð.
Montolivo meiddist þegar Ítalía og Spánn áttust við á fimmtudaginn í undankeppni HM. Slitnaði krossband í vinstra hné og fór hann í aðgerð strax tveimur dögum seinna.
Aðgerðin þótti takast vel en ólíklegt er að hann leiki aftur á leiktíðinni þó hann gæti mögulega náð síðustu leikjum leiktíðarinnar með AC Milan í ítölsku A-deildinni en hann missir af mikilvægum leikjum Ítala í undankeppni HM í haust og í vor.
