Fótbolti

Björn Bergmann og Ögmundur byrja gegn Finnlandi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Björn Bergmann Sigurðarson byrjar í sínum öðrum landsleik fyrir A-landslið Íslands.
Björn Bergmann Sigurðarson byrjar í sínum öðrum landsleik fyrir A-landslið Íslands. vísir/vilhelm
Björn Bergmann Sigurðarson, framherji Molde, er í byrjunarliði íslenska landsliðsins í fótbolta sem mætir Finnlandi klukkan 18.45 á Laugardalsvellinum í undankeppni HM 2018. Þetta er annar landsleikur Björns á ferlinum.

Skagamaðurinn 25 ára gamli spilaði sex mínútur fyrir íslenska landsliðið á móti Kýpur í lokaumferð undankeppni EM 2012 í september 2011 þegar hann kom inn á sem varamaður. Síðan þá hefur hann ekki gefið kost á sér og ekki haft áhuga á að spila fyrir íslenska landsliðið. Vísir fjallaði um feril hans í síðustu viku og má lesa meira um það hér.

Sjá einnig:Björn Bergmann: Pabbi fékk örugglega kökk í hálsinn

Björn Bergmann var óvænt valinn í hópinn í síðustu viku eftir að Heimir Hallgrímsson bað hann um að endurskoða hug sinn. Framherjinn kraftmikli hefur verið að spila vel með Molde í Noregi og þá er skortur á framherjum vegna meiðsla Kolbeins Sigþórssonar og Jóns Daða Böðvarssonar. Kolbeinn er ekki í hópnum vegna meiðsla og Jón Daði hefur einnig verið tæpur.

Viðar Örn Kjartansson þarf að sætta sig við að sitja áfram á bekknum en Alfreð Finnbogason er við hlið Björns Bergmanns í framlínunni. Alfreð skoraði í síðasta mótsleik Íslands gegn Úkraínu ytra þar sem liðin gerðu 1-1 jafntefli.

Hannes Þór Halldórsson, markvörður íslenska liðsins, er ekki með í kvöld sem eru slæm tíðindi en Hannes hefur verið tæpur vegna meiðsla í læri. Ögmundur Kristinsson, markvörður Hammarby í Svíþjóð, tekur hans stöðu að vanda. Annars er ekkert óvænt í byrjunarliðinu.

Vísir er með beina lýsingu frá leiknum sem má finna hér.

Byrjunarliðið gegn Finnlandi í kvöld.graf/garðar
Byrjunarlið Íslands: Ögmundur Kristinsson - Birkir Már Sævarsson, Kári Árnason, Ragnar Sigurðsson, Ari Freyr Skúlason - Jóhann Berg Guðmundsson, Gylfi Þór Sigurðsson, Aron Einar Gunnarsson, Birkir Bjarnason - Björn Bergmann Sigurðarson - Alfreð Finnbogason


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×