Ef litið er á pappírinn fræga er ekki mikill munur á íslenska landsliðinu og því finnska sem strákarnir okkar mæta í undankeppni HM 2018 á Laugardalsvelli í kvöld.
Finnarnir spila í stórum liðum í Póllandi og Þýskalandi en eru samt langt fyrir neðan Ísland á heimslistanum og taldir litla liðið fyrir leikinn á morgun. Aðspurður á blaðamannafundi hver væri munurinn á liðunum var Hans Backe, þjálfari FInna, fljótur að svara.
„Agi og aftur agi. Þetta snýst allt um aga. Allir leikmennirnir hafa sæst á hvernig þeir þurfa að spila. Það kemur enginn Íslendingur í landsliðið og spilar eins og hann gerir fyrir félagsliðið sitt. Þeir ná að taka félagsliðakubbinn úr hausnum á sér og setja landsliðskubbinn í. Það er munurinn,“ sagði Backe.
Backe var í stuði á fundinum í gær og greip fram í fyrir miðverðinum Paulus Arejuure þegar hann var að svara spurningu fréttamanns um hvort hann búist við einhverju óvæntu frá íslenska landsliðinu á morgun vegna meiðslavandræða.
„Ísland mun aldrei breyta leikstíl sínum sama á móti hverjum það er að spila. Ísland spilaði alla leikina á EM með sama byrjunarlið. Það verður einhver að meiðast ef byrjunarliðið á að breytast,“ sagði Backe.
Eitt er þó klárt. Kolbeinn Sigþórsson er meiddur og verður ekki með. Því fagnar fyrirliði og varnarmaður Finna, Niklas Moisander, sem spilaði lengi með Kolbeini og þekkir hans styrkleika.
„Ég þekki hann mjög vel. Við erum góðir vinir og spiluðum saman hjá AZ og Ajax. Það er leiðinlegt að hann sé meiddur því hann er góður leikmaður og góður vinir en hvað varðar leikinn þá er ég ánægður því hann er sterkur og góður í loftinu. Hann er líka bara góður framherji,“ sagði Niklas Moisander.
Fréttina í heild má sjá í spilaranum hér að ofan.
