
Spennustigið í Háskólabíói á sunnudeginum var mjög hátt og mátti sjá það á viðbrögðum þingfulltrúa og fundargesta að mikið væri í húfi. Að lokum hafði Sigurður Ingi Jóhannsson sigur í sögulegum formannsslag en hlaut aðeins rétt rúmlega 52 prósent atkvæða. Því skipti hvert atkvæði miklu máli í formannskosningunum.
Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins í Reykjavík, segir einnig aðeins hluta Framsóknarmanna hafa kosið á flokksþinginu um helgina. Hún segir Sigmund Davíð hafa lengi átt sér óvini innan flokksins.
„Við vitum að ekki allir höfðu rétt á að kjósa. Ég fullyrði að Sigmundur hefði unnið í allsherjar atkvæðagreiðslu,“ segir Guðfinna. Að auki vandar hún þeim ekki kveðjurnar sem höfðu sigur í formannskosningunum. „Flokkseigendafélagið og fjármagnsöflin tóku völdin í flokknum af grasrótinni.“
Sveinn Hjörtur segir erfitt verkefni að ná flokknum sem einni heild. „Þetta er sorglegt ef það hefur verið átt við kjörskrána. Ég veit um marga gamla og gegna Framsóknarmenn sem eru reiðir og hafa sagt sig úr flokknum í dag,“ segir hann.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson baðst undan viðtali við Fréttablaðið þegar eftir því var leitað.
Sigurður Ingi kemur af fjöllum
„Ég veit nú ekki hvað formaður Framsóknarfélags í Reykjavík,“ sagði Sigurður Ingi í Kastljósi í gærkvöldi.
„Við höfðum á að skipa mjög góðum bæði kjörstjórn og kjördæmanefnd sem fór yfir þetta allt saman og það var allt samþykkt á þinginu.“
Sigurður Ingi sagðist ekki hafa heyrt neitt frekar af ásökunum um svindl. Slíkar athugasemdir hefðu ekki borist á skrifstofu flokksins.
„Ég hef reyndar verið í sambandi við framkvæmdastjórann í dag og ekki heyrt af neinu slíku.“
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.