Körfubolti

NBA-leikmaður missir milljónir eftir að hann beitti eiginkonuna ofbeldi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Darren Collison.
Darren Collison. Vísir/Getty
NBA-leikmaðurinn Darren Collison fær ekki byrja komandi tímabil í NBA-deildinni í körfubolta og ástæðuna má rekja til framkomu hans innan veggja heimilisins.  

Darren Collison hefur verið dæmdur í átta leikja bann og má heldur ekki þiggja laun á þeim tíma eftir að hann játaði að hafa beitt eiginkonu sína ofbeldi á heimili þeirra. ESPN segir frá.

Collison fékk þriggja ára skilorðsbundin dóm auk þess að hann þarf að eyða tuttugu dögum í fangelsi. Atvikið gerðist í maí á heimili þeirra hjóna í úthverfi Sacramento.

Darren Collison er núverandi leikmaður Sacramento Kings en hann hefur einnig leikið með liðum New Orleans Hornets, Indiana Pacers, Dallas Mavericks og Los Angeles Clippers. Hann hefur spilað í NBA-deildinni frá 2009.

Darren Collison var með 14,0 stig og 4,3 stoðsendingar að meðaltali á síðustu leiktíð en tímabilið á undan, hans fyrsta með Kings, var hann með 16,1 stig og 5,6 stoðsendingar.

Collison missir af átta fyrstu leikjum Sacramento Kings á leiktíðinni og hann missir einnig laun upp á rúma 380 þúsund dollara eða rúmlega 43 milljónir íslenskra króna.

NBA-deildin sagði frá því í yfirlýsingu sinni að hún hafi staðið fyrir eigin rannsókn á máli Collison auk þess að leita til hóps sérfræðinga til að ákveða refsingu hans.

Sacramento Kings hefur vitað í nokkurn tíma að liðið byrji tímabilið án leikstjórnanda síns og hefur að þeim sökum fengið til sín bæði Ty Lawson og Jordan Farmar.

Fyrsti leikur Darren Collison á tímabilinu verður á móti New Orleans Pelicans 8. nóvember.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×