„Ég er fórnarlamb einnar stærstu pólítísku ófrægingarherferðar í sögu Bandaríkjanna,“ sagði Trump á kosningafundi í Charlotte í Norður-Karólína ríki. „Þau eru að reyna að eyðileggja fyrir einni mestu fjöldahreyfingu í sögu Bandaríkjanna.“
Minnst ellefu konur hafa stigið fram með ásakanir á hendur Trump sem segir konurnar allar vera að ljúga. Trump fór mikinn á kosningafundinum í gær og ræddi um ásakanirnar, þvert gegn ráðum ráðgjafa sinna sem vilja að hann tali um stefnumál sín.
„Fólkið mitt segir: Ekki tala um þetta, talaðu um störf, talaðu um efnahaginn. Ég verð samt að fá að tala um þetta vegna þess að ég verð að véfengja þessar sögusagnir,“ sagði Trump.
Í gær stigu tvær konur fram með nýjar ásakanir á hendur Trump. Summer Zervos, fyrrum keppandi í raunveruleikaþætti Trump, The Apprentice, og Kristin Anderson. Þær segja báðar að Trump hafi káfað á sér.
Trump segir segir að ásakanirnar séu hluti af stærra samsæri ráðandi aðila sem vilji gera allt til þess að koma í veg fyrir að Trump verði kosinn forseti. Þessir aðilar séu hinir stóru fjölmiðlar í Bandaríkjunum og fulltrúar sérhagsmuna.
„Það er verið að hagræða úrslitum. Þetta er ein stór hagræðing og ljótar lygar,“ sagði Trump. Fylgi hans hefur tekið væna dýfu í kjölfar ásakananna og minnka líkurnar á því að Trump verði næsti forseti dag frá degi.
Stjórnmálaskýrendur ytra segja sumir hverjir að með þessu tali sé Trump að undirbúa tap sitt. Hann verði þá með afsökun á reiðum höndum í nóvember næstkomandi, þegar gengið verður til kosninga.