Löggæsluyfirvöld í Bandaríkjunum segja að tölvupóstarnir sem urðu til þess að FBI rannsakar nú Hillary Clinton, forsetaefni Demókrata, og notkun hennar á tölvupóstum sem utanríkisráðherra, hafi komið frá Anthony Weiner, umdeildum fyrrum þingmanni, og konu hans Huma Abedin. New York Times greinir frá.
Weiner, sem flæktur hefur verið í hvert kynlífshneysklið á fætur öðru, er nú til rannsóknar hjá FBI vegna smáskilaboða sem hann á að hafa sent til 15 ára gamallar stúlku. Kona hans Abedin, einn nánasti ráðgjafi Clinton, er lykilstarfsmaður í kosningabaráttu Clinton og hefur starfað með henni um árabil.
Í rannsókn sinni á Weiner gerði FBI ýmis tæki þeirra hjóna upptæk og samkvæmt heimildum New York Times fundust hinir nýju tölvupóstar eftir að að það var gert.
Fyrr á árinu rannsakaði FBI meðhöndlun Clinton á ríkisleyndarmálum þar sem hún notaði ekki öruggt tölvupóstfang sem skráð var á vefsvæði bandarísku ríkisstjórnarinnar heldur sitt eigið póstfang þegar hún starfaði sem utanríkisráðherra á árunum 2009 til 2013.
Ekki var mælt með að Clinton yrði ákærð vegna málsins. Þrátt fyrir það sagði FBI að Clinton hefði sýnt af sér alvarlega vanrækslu í starfi með tölvupóstnotkun sinni.
FBI rannsakar nú hina nýju tölvupósta og hvort að í þeim hafi leynst upplýsingar sem flokka megi sem ríkisleyndarmál. Aðeins ellefu dagar eru til kosninga og þykir víst að rannsókn FBI muni hrista upp í kosningabaráttunni í Bandaríkjunum.
Tölvupóstar Clinton sem FBI rannsakar komu frá Anthony Weiner

Tengdar fréttir

FBI rannsakar Clinton á nýjan leik
Bandaríska alríkislögreglan FBI mun hefja á ný rannsókn sína á tölvupóstum Hillary Clinton.

Tölvupóstar Clinton enn til trafala
FBI hefur sagt nokkra þeirra tölvupósta sem hún skilaði inn innihalda leyniskjöl. Slík meðhöndlun leyniskjala er ólögleg í Bandaríkjunum.

Eiginkona Weiner komin með nóg eftir að hann var gripinn í bólinu í þriðja sinn
Huma Abedin, einn nánasti samstarfsmaður Hillary Clinton, er loks búinn að sparka eiginmannin sínum, hinum umdeilda Anthony Weiner.