Vida var úti að skemmta sér til klukkan fjögur um nóttina en í staðinn fyrir að taka leigubíl settist hann upp í Mercedes-bifreið sína og keyrði heimleiðis. Frá þessu er greint í króatískum og úkraínskum fjölmiðlum.
Lögreglan stöðvaði Vida á bílnum og lét hann blása en 1,51 prómill mældust í miðverðinum. Hér á Íslandi væri það 18 mánaða svipting og 160.000 króna sekt. Ökuleyfið var tekið af Vida og hann látinn greiða myndarlega sekt.
Forráðamenn og þjálfaralið Dynamo Kiev var lítið að kippa sér upp við þetta því Vida var í byrjunarliðinu í 2-1 sigurleik gegn Dnipro á sunnudaginn, tveimur dögum eftir að vera tekinn fullur á bílnum. Spurning er þó hvort einhver hafi vitað af þessu fyrr en í gærkvöldi þegar fréttin birtist fyrst.
4 gun once Domagoj Vida, 1.51 promil alkollu oldugu Kiev polisince belirlenmis pic.twitter.com/t7YyPJGcLa
— rüştü şenyüz (@rustusnyz) November 8, 2016
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Vida lendir í basli með bakkus. Þegar hann var leikmaður Dinamo Zagreb fyrir fjórum árum síðan opnaði hann bjór í liðsrútunni á leið í bikarleik gegn Vrsar.
Þáverandi þjálfari Dinamo henti honum út úr rútunni og skildi Vida eftir á miðjum veginum. Sá maður heitir Ante Cacic og er þjálfari króatíska landsliðsins í dag. Nú á bara eftir að koma í ljós hvernig hann tekur þessum fréttum.
Domagoj Vida er lykilmaður í króatíska landsliðinu en hann er búinn að byrja alla þrjá leikina í undankeppninni til þessa.