Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur haft tvívegis samband við Benedikt Jóhannesson, formann Viðreisnar, í dag vegna stjórnarmyndunarviðræðnanna. Fyrst hafði Bjarni samband við Benedikt fyrir þingflokksfund Sjálfstæðisflokksins í dag og svo aftur eftir að þeim fundi var lokið.
Í samtali við Vísi segir Benedikt að ekkert sé að gerast á milli flokkanna, staðan sé óbreytt og að Bjarni ætli sér, líkt og hann sagði í gær, að hugsa málið áfram yfir helgina, það er hvaða flokka hann kemur til með að bjóða í formlegar stjórnarmyndunarviðræður.
Vísir heyrði einnig í Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri grænna, en hún sagðist ekki hafa heyrt í Bjarna í dag. Formenn Pírata og Bjartrar framtíðar, Birgitta Jónsdóttir og Óttarr Proppé, sögðust einnig í samtali við Vísi ekki hafa heyrt í Bjarna í dag.
Bjarni hafði sagt við Vísi fyrr í dag að hann hefði rætt við fleiri en einn formann í dag, en gaf þó ekki upp hverjir þeir væru.
Bjarni hafði tvívegis samband við Benedikt í dag
Birgir Olgeirsson skrifar
