Stephen Curry og Kevin Durant skoruðu samtals 65 stig þegar Golden State Warriors vann sex stiga sigur, 121-127, á Toronto Raptors á útivelli.
Þetta var fimmti sigur Golden State í röð en liðið er í 2. sæti Vesturdeildarinnar.
Curry var með 35 stig í leiknum í nótt og gaf auk þess sjö stoðsendingar. Durant skoraði 30 stig, tók níu fráköst og gaf sex stoðsendingar.
Stigahæsti leikmaður deildarinnar, DeMar DeRozan, var atkvæðamestur hjá Toronto með 34 stig. Helmingur þeirra kom af vítalínunni en Toronto-liðið tók alls 41 vítaskot í leiknum.
Russell Westbrook skoraði 30 stig, tók sjö fráköst og gaf níu stoðsendingar þegar Oklahoma City Thunder lagði Houston Rockets að velli, 105-103.
Westbrook fékk góða hjálp frá Victor Oladipo sem skoraði 29 stig, tók tíu fráköst og gaf fimm stoðsendingar.
Ryan Anderson var stigahæstur í liði Houston með 14 stig. James Harden, sem hefur verið frábær í vetur, skoraði 13 stig, tók sjö fráköst og gaf 13 stoðsendingar.
Memphis Grizzlies stöðvaði sjö leikja sigurgöngu Los Angeles Clippers þegar liðin mættust í Staples Center. Lokatölur 107-111, Memphis í vil.
Mike Conley skoraði 30 stig og gaf átta stoðsendingar í liði Memphis. Spænski miðherjinn Marc Gasol skoraði 26 stig og þ.á.m. gríðarlega mikilvægan þrist á lokasekúndunum.
J.J. Redick skoraði 29 stig fyrir Clippers og Blake Griffin 25 stig. Leikstjórnandinn Chris Paul hefur oft spilað betur en hann hitti aðeins úr þremur af þeim 11 skotum sem hann tók í leiknum.
Úrslitin í nótt:
Toronto 121-127 Golden State
Oklahoma 105-103 Houston
LA Clippers 107-111 Memphis
Philadelphia 109-102 Washington
Orlando 89-82 New Orleans
Indiana 103-93 Cleveland
Boston 90-83 Dallas
NY Knicks 105-102 Detroit
Atlanta 107-100 Milwaukee
Denver 120-104 Phoenix
Sacramento 105-110 San Antonio