Enn er ekkert vitað hverjir verða í ráðherraliði stjórnarinnar eða öðrum lykilembættum, en vísbendingar sjást í því hverjir hafa verið dyggustu stuðningsmenn Trumps í kosningabaráttunni.
Þar hafa ekki síst verið nefndir þremenningarnir Chris Christie, Newt Gingrich og Rudy Giuliani, sem hafa allir verið áberandi í stuðningsliði Trumps síðustu mánuðina.

Newt Gingrich, fyrrverandi forseti fulltrúadeildar þingsins, hefur verið nefndur til sögunnar sem hugsanlegur utanríkisráðherra. Þá hefur Giuliani, fyrrverandi borgarstjóri í New York, verið talinn eiga möguleika á að verða dómsmálaráðherra.
Fleiri hafa verið nefndir, til dæmis Rick Perry, sem er fyrrverandi ríkisstjóri í Texas, David Clark, lögreglustjóri í Milwaukee, og Michael Flynn, fyrrverandi yfirmaður leyniþjónustu hersins.

Þá þykir skurðlæknirinn Ben Carson, sem keppti við Trump um að verða forsetaefni Repúblikana, hugsanlega koma til greina sem heilbrigðisráðherra.
Að minnsta kosti tveir hafa verið sagðir hugsanlegir fjölmiðlafulltrúar Trumps, en það eru þeir Corey Lewandowsky og Jared Kushner. Kushner er tengdasonur Trumps en Lewandowsky var lengi framan af kosningastjóri hans.
Þá eru þeir Steve Bannon og Reince Priebus sagðir koma til greina í embætti starfsmannastjóra Hvíta hússins.

Priebus er hins vegar formaður landsnefndar Repúblikanaflokksins og stóð þétt við bakið á Trump undir lokin.
Ekkert er svo sem enn vitað hverja Trump velur með sér. Ekki er víst að neinn þeirra sem hér hafa verið nefndir endi í ríkisstjórn Trumps.

Tvö ár eru hins vegar til næstu þingkosninga í Bandaríkjunum. Þá gæti staðan breyst þannig að Demókratar styrki stöðu sína á þingi verulega. Það er algengt á miðju fyrsta kjörtímabili forseta.
Því má búast við að Trump og félagar reyni að koma sem mestu í verk fyrstu tvö árin, meðan Repúblikanar eru örugglega með meirihluta.
