Pape Seck var ekki í leikmannahópi Tindastóls í kvöld þegar Stólarnir unnu 43 stiga sigur á Snæfell á Króknum.
Jose Costa, þjálfari Tindastóls, vildi ekki staðfesta það eftir leikinn að Pape Seck væri á förum frá liðinu.
„Hann komst ekki í liðið og ég veit ekki hvað verður gert varðandi hann,“ sagði Jose Costa í viðtali við Hauk Skúlason, blaðamann Vísis eftir leik en Costa vildi lítið gefa upp um framtíð Pape Seck á Sauðarkróki.
Pape Seck er með 5,3 stig og 2,5 fráköst að meðaltali á 11,3 mínútum í þeim fjórum leikjum sem hann hefur spilað með Tindastólsliðinu.
Pape Seck spilaði aðeins í rúmar þrjár mínútur í tapinu í Keflavík og var síðan utan hóps í kvöld. Besti leikur hans var fyrsti leikur hans á móti Þór frá Akureyri en Pape Seck var með 11 stig á 16 mínútum í þeim leik.
Mamadou Samb var því einn um hituna í leiknum í kvöld og skoraði hann 24 stig og tók 8 fráköst á þeim 24 mínútum sem hann spilaði.
Erlendur leikmaður Stólanna komst ekki í liðið í kvöld

Tengdar fréttir

Umfjöllun og viðtöl: Tindastóll - Snæfell 100-57 | Stórsigur Stólanna
Tindastólsmenn áttu ekki í miklum vandræðum með botnlið Snæfells í sjöttu umferð Domino´s deildar karla í körfubolta í kvöld.

Körfuboltakvöld: Löngunin er engin að verja þetta skot
Sérfræðingarnir í Körfuboltakvöldi voru afar krítískir á spilamennsku Mamadou Samb, miðherja Tindastóls, í leiknum gegn Keflavík á dögunum en þeir rýndu í spilamennsku hans í þætti gærkvöldsins.