Njarðvíkingar unnu langþráðan sigur í Vesturbænum í gærkvöldi en þetta var fyrsti útisigur Njarðvíkur á KR í úrvalsdeild karla í meira en áratug.
Njarðvíkingar höfðu fyrir leikinn tapað nítján leikjum í röð í deild (10) og úrslitakeppni (9) í DHL-höllinni eða öllum leikjum sínum á Íslandsmóti í Vesturbænum síðan 3. apríl 2006.
Það liðu því alls 10 ár, 7 mánuðir og 21 dagur á milli sigurleikja Njarðvíkingar á KR í Vesturbænum á Íslandsmótinu.
Það hefur oft ekki munað miklu á liðunum og tveir af tapleikjunum voru oddaleikur um sæti í lokaúrslitunum. Það munaði hinsvegar mikið á úrslitunum í þessum oddaleikjum því KR vann annan eftir tvær framlengingar en hinn með 28 stiga mun.
Síðasti sigurleikur Njarðvíkur í DHL-höllinni fyrir leikinn í gær var fjórði leikur liðanna í undanúrslitum úrslitakeppninnar 2006. Sigurinn kom Njarðvíkurliðinu í lokaúrslitin þar sem liðið vann Skallagrím 3-1 og varð Íslandsmeistari.
Jóhann Árni Ólafsson er eini leikmaður Njarðvíkurliðsins sem spilaði báða þessa leiki. Jóhann Árni var með 2 stig, 11 fráköst og 2 stoðsendingar á 29 mínútum í gær en var með 8 stig, 2 fráköst og 2 stoðsendingar á 26 mínútum í leiknum fyrir tíu árum.
Brynjar Þór Björnsson og Darri Hilmarsson voru einu KR-ingarnir sem spiluðu báða þessa leiki en Darri þó bara í fjórar mínútur í þessum leik fyrir áratug.
19 leikja taphrina Njarðvíkinga í Vesturbænum
(Leikir í deild og úrslitakeppni)
3. apríl 2006 - Úrslitakeppni - 90-85 sigur
1) 19. nóvember 2006 - Deild - 69-75 tap
2) 12. apríl 2007 - Úrslitakeppni - 76-82 tap
3) 16. apríl 2007 - Úrslitakeppni - 81-83 tap
4) 1. nóvember 2007 - Deild - 81-81 tap
5) 17. nóvember 2008 - Deild - 48-103 tap
6) 8. febrúar 2010 - Deild - 77-89 tap
7) 12. nóvember 2010 - Deild - 69-92 tap
8) 17. mars 2011 - Úrslitakeppni - 80-92 tap
9) 21. október 2011 - Deild - 74-85 tap
10) 9. nóvember 2012 - Deild - 70-87 tap
11) 14. nóvember 2013 - Deild - 72-96 tap
12) 9. október 2014 - Deild - 78-92 tap
13) 6. apríl 2015 - Úrslitakeppni - 62-79 tap
14) 12. apríl 2015 - Úrslitakeppni - 75-83 tap
15) 17. apríl 2015 - Úrslitakeppni - 94-102 tap
16) 30. október 2015 - Deild - 86-105 tap
17) 4. apríl 2016 - Úrslitakeppni - 67-69 tap
18) 10. apríl 2016 - Úrslitakeppni - 54-72 tap
19) 15. apríl 2016 - Úrslitakeppni - 64-92 tap
24. nóvember 2016 - Deild - 72-61 sigur

