Guðlaug, eða Gulla, eins og hún er ávallt kölluð notar kertastjaka frá Georg Jensen sem aðventukrans. „Ég vil hafa þetta náttúrulegt. Kertastjakann er ég búin að eiga lengi en ég keypti síðan statíf sem ég hengi hann upp á. Ég rakst á það fyrir tilviljun þegar ég var á ferðalagi í útlöndum. Það breytir útlitinu,“ segir hún.
Gulla notar appelsínur sem skraut. Sker appelsínubörk út í stjörnur og hengir á bönd á statífinu sem þorna með tímanum. Síðan skreytir hún heilar appelsínur með negulnöglum. Gulla fór út í garð og klippti greinar og lagði í kring. „Ég reyni að nota hluti úr náttúrunni eða sem eru í kringum mig til að skreyta með. Annars skreyti ég miklu minna núna en ég gerði áður,“ segir hún.

Gulla var með í sýningu Textílfélagsins, Samtvinna, í Gallerí Anarkíu í Hamraborg í Kópavogi en hún hefur verið að búa til fallega púða. Þá starfar hún einnig hjá Fasteignasölunni Bæ þar sem hún aðstoðar viðskiptavini við að gera íbúðir sölulegar auk þess að selja þær. Þá er hún að undirbúa uppbyggingu á heimasíðunni hjá Má Mí Mó. Margir muna eftir Gullu úr þáttunum Innlit/Útlit á SkjáEinum og Veggfóðri á Stöð 2 þar sem innanhússhönnunin nýttist vel.