Teitur spáði um úrslit fyrsta leiks Íslands á Eurobasket 2017 eftir að það kom í ljós hverjir mótherjar íslenska liðsins verða næsta sumar.
Íslenska liðið er í riðli með Frakklandi, Póllandi, Slóveníu, Finnlandi og svo Grikklandi sem verða fyrstu mótherjar íslensku strákanna í keppninni.
„1.sigur okkar i lokakeppni kemur 31.águst 2017. last það fyrst hér. Ég ætla að vera á staðnum,“ skrifaði Teitur inn á Twitter.
Þann dag mæta íslensku strákarnir hinu sterka liði Grikkja sem varð í sjöunda sæti á síðasta EM. Íslenska liðið stóð sig vel á sínu fyrsta EM fyrir tveimur árum en varð engu að síður að sætta sig við tap í öllum fimm leikjum sínum. Íslenska liðið er því enn að bíða eftir sínum fyrsta sigurleik á Eurobasket.
Sagan er heldur ekki með strákunum okkar þegar kemur að leikjum við Grikki.
Ísland hefur tapað öllum þremur leikjum sínum við gríska landsliðið í gegnum tíðina en þjóðirnar hafa samt ekki mæst í tæpan aldarfjórðung.
Teitur Örlygsson, sem á að baki 118 landsleiki, spilaði einmitt síðasta leik Íslands við Grikki en íslenska liðið tapaði þá naumlega með fjórum stigum í forkeppni Ólympíuleikanna 22. júní 1992.
Teitur var sjálfur með fjórtán stig í þessum leik en stigahæstur var Valur Ingimundarson með 25 stig. Valur var stigahæstur í tveimur síðustu leikjum Íslands á móti Grikkjum en hinn var árið 1987.
Teitur átti seinna eftir að fara út til Grikklands og spila í eitt tímabil, 1996-97, með liði Larissa.
Teitur Örlygsson er sá eini í sögu íslenska körfuboltans sem hefur orðið tíu sinnum Íslandsmeistari eftir úrslitakeppni.
1.sigur okkar i lokakeppni kemur 31.águst 2017. last það fyrst hér.
— Teitur Örlygsson (@teitur11) November 22, 2016
Ég ætla að vera á staðnum. Ísland vs Grikkland #körfubolti