Nýr bandarískur leikmaður verður með ÍR þegar liðið sækir Þór Ak. heim í 8. umferð Domino's deildar karla á sunnudaginn.
Sá heitir Quincy Hankins-Cole, 26 ára gamall framherji sem er 2,03 metrar á hæð.
Hann þekkir ágætlega til hér á landi en hann lék með Snæfelli tímabilið 2011-12. Þá var Hankins-Cole með 18,3 stig, 13,0 fráköst og 2,6 stoðsendingar að meðaltali í leik.
Hankins-Cole kemur í staðinn fyrir Matthew Hunter sem náði sér ekki á strik hjá ÍR og var m.a. ekki í byrjunarliðinu gegn KR í síðustu umferð.
Eftir tapið fyrir Haukum 11. nóvember talaði Borce Ilievski, þjálfari ÍR, um að liðið myndi líklega fá sér nýjan Bandaríkjamann sem er nú mættur í Breiðholtið.
ÍR er í ellefta og næstneðsta sæti Domino's deildarinnar með fjögur stig eftir sjö umferðir.
