Stjórn Körfuknattleikssambands Íslands hefur gert nýjan tveggja ára samning við Ívar Ásgrímsson og mun hann þjálfa A-landsliðs kvenna í körfuknattleik fram yfir EuroBasket 2019.
Auk þess að vera aðalþjálfari liðsins mun Ívar taka þátt í að móta enn frekar stefnu A-landsliðsins og markmiðasetningu til næstu ára í samráði við stjórn og afreksnefnd KKÍ.
Ívar hefur verið þjálfari liðsins síðastliðin tvö ár og rennur núverandi samningur hans út núna í lok ársins, eða þegar núverandi verkefni liðsins er að ljúka.
Landsliðið er um þessar mundir að leika í undankeppni EM, EuroBasket 2017. Íslenska liðið tapaði með 46 stigum úti í Slóvakíu á laugardaginn en fær tækifæri til að bæta fyrir það tap þegar portúgalska liðið kemur í Laugardalshöllina á miðvikudaginn.
„Töluverð endurnýjun á sér stað í A-liði kvenna og eru bjartir tímar framundan. Margir efnilegir leikmenn eru að taka sín fyrstu skref með liðinu sem og leikmenn sem hafa verið í háskólanámi í Bandríkjunum undanfarið, og ekki geta tekið þátt í landsliðsverkefnum á meðan, eru að klára nám, og munu geta tekið þátt í komandi verkefnum,“ segir í fréttatilkynningu frá KKÍ.
Þar kemur líka fram að stefnan sé sett á það að A-landslið kvenna komist á lokamót EM, EuroBasket, í síðasta lagi árið 2021. Jafnframt verður farið í vinnu með félögunum í að efla starf meistaraflokka félaganna á landinu og mun Ívar stýra þeirri vinnu hjá KKÍ.
Ívar þjálfar kvennalandsliðið í körfubolta áfram næstu tvö árin
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
