Fótbolti

Stíflan brast í seinni hálfleik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lionel Messi skorar fyrra mark sitt.
Lionel Messi skorar fyrra mark sitt. Vísir/Getty
Lionel Messi skoraði tvívegis þegar Barcelona vann 0-3 útisigur á Osasuna í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Börsungar fengu nóg af færum í fyrri hálfleik en tókst ekki að koma boltanum framhjá Nauzet Pérez í marki Osasuna.

Heimamenn voru svo hársbreidd frá því að ná forystunni í upphafi seinni hálfleiks þegar Sergio León vippaði boltanum í slána á marki Barcelona.

Á 59. mínútu braut Luis Suárez loks ísinn þegar hann skoraði af stuttu færi eftir sendingu frá Jordi Alba.

Bakvörðurinn lagði svo upp annað mark á 72. mínútu fyrir Messi sem skoraði svo þriðja markið í uppbótartíma. Argentínumaðurinn er nú orðinn markahæstur í spænsku deildinni með 11 mörk.

Með sigrinum minnkaði Barcelona forskot Real Madrid á toppi deildarinnar niður í þrjú stig. Madrídingar geta þó endurheimt sex stiga forystu með sigri á Deportivo La Coruna í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×