Fráfarandi ríkisstjórn lagði fram frumvarp um jöfnun lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna og fólks á almennum vinnumarkaði og hugðist greiða tugi milljarða inn á uppsafnaðar skuldbindingar ríkissjóðs vegna lífeyris opinberra starfsmanna. Frumvarpið var lagt til hliðar þegar nokkur félög opinberra starfsmanna felldu samkomulag um breytingar á lífeyrismálunum.
Breytingarnar tengjast einnig heildarsamkomulagi á vinnumarkaði og því eru kjarasamningar sem koma til endurskoðunar í upphafi næsta árs í óvissu. Bjarni Benediktsson starfandi fjármálaráðherra sagði þegar hann mælti fyrir fjárlagafrumvarpi starfsstjórnarinnar á Alþingi í gær að ágætis jafnvægi væri nú í efnahagsmálum en blikur væru á lofti.

Ágætis vöxtur væri í fjárfestingu atvinnuvega samhliða aukningu í einkaneyslu og heimili og fyrirtæki hafi nýtt hagstæðar aðstæður til að draga úr skuldsetningu.
„En það er ekki hægt að horfa framhjá því að það eru vaxandi líkur á því að þensla kunni að ógna jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Hraður vöxtur ferðaþjónustunnar setur viðvarandi þrýsting á krónuna. Laun hafa hækkað verulega umfram framleiðnivöxt og gera má ráð fyrir að framleiðsluspennan nái hámarki í byrjun næsta árs. Breytt umgjörð kjarasamninga er því nauðsynleg en óvissu gætir nú á vinnumarkaði meðal annars vegna þess að ekki hefur enn orðið að jöfnun lífeyrisréttinda á milli almenna og opinbera markaðarins,“ sagði fjármálaráðherra.
Bjarni sagðist vona að Alþingi auðnaðist að ljúka því verkefni á yfirstandandi þingi og þá helst í þessum mánuði.
„Það er mikið undir. Ekki bara fyrir vinnumarkaðinn og áframhaldandi frið á vinnumarkaði, heldur er ljóst að ríki og sveitarfélög munu um áramótin þurfa að hækka iðgjöld verulega ef ekki verður brugðist við. Á undanförnum dögum og vikum hefur haldið áfram samtal við heildarsamtökin vegna þess samkomulags sem undirritað var á sínum tíma og stendur enn. Enginn hefur sagt sig frá því. En samtalið snýst meðal annars um það hvernig við getum aðlagað mögulegt frumvarp sem kæmi þá fram á þessu þingi að þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið frá því málið var lagt hér fram á síðasta þingi fyrir kosningar,“ sagði Bjarni Benediktsson.