Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðsmiðvörður í fótbolta, er búin að framlengja samning sinn við sænska úrvalsdeildarliðið Eskilstuna United um eitt ár. Þetta kemur fram á heimasíðu félagsins.
Glódís Perla, sem er 21 árs gömul, gekk í raðir Eskilstuna frá Stjörnunni í fyrra og spilaði alla 22 leikina tímabilið 2015 í byrjunarliðinu er Eskilstuna háði mikla baráttu við Rosengård um sænska meistaratitilinn.
Í ár spilaði Glódís 20 leiki af 22 og aftur alla í byrjunarliðinu en hún er algjör lykilmaður í liði Eskilstuna sem hafnaði í öðru sæti í fyrra og í þriðja sæti í ár.
Glódís var eini lykilmaðurinn sem Eskilstuna átti eftir að semja við og fagna menn þar á bæ mjög að halda íslenska miðverðinum sem samdi til eins árs í viðbót.
„Ég er mjög ánægð að vera ár til viðbótar í Eskilstuna. Félagið er alltaf að verða flottara og mig langar að vera áfram hluti af því. Vonandi get ég gert enn betur fyrir félagið á næstu leiktíð og orðið betri sem leikmaður,“ segir Glódís Perla á heimasíðu Eskilstuna.
Glódís er fastamaður í byrjunarliði íslenska landsliðsins sem verður í þriðja sinn í röð á meðal þátttökuþjóða á EM sem fram fer í Hollandi næsta sumar.

