Ef grunnskólakennarar samþykkja nýjan kjarasamning þá mun samningurinn kosta Sveitarfélagið Árborg 147 milljónir króna samkvæmt upplýsingum frá Þorsteini Hjartarsyni, fræðslustjóra. Um er ræða 119 stöðugildi kennara á Selfossi, Eyrarbakka og Stokkseyri.
En þarf að grípa til einhverra aðhaldsaðgerða hjá sveitarfélaginu komi þessar launahækkanir til?
„Í fjárhagsáætlun 2017 er gert ráð fyrir fjármunum v/launahækkana kennara sem duga þó ekki alveg til að dekka þessa hækkun, enda lá ekki fyrir hver hún yrði þegar fyrri umræða fór fram í síðasta mánuði. Fara þarf betur yfir málið fyrir seinni umræðu fjárhagsáætlunar, en ef tekst að koma lífeyrisfrumvarpinu í gegnum Alþingi fyrir áramót mun það létta verulega á greiðslum Árborgar á mótframlagi í lífeyrissjóð. Þær gætu jafnvel lækkað um rúmlega 100 milljónir sem kæmi sér auðvitað afar vel“, segir Þorsteinn Hjartarson.
Atkvæðagreiðsla grunnskólakennara um nýjan kjarasamning stendur yfir til klukkan 16 mánudaginn 12. desember.
Launahækkanir kennara kosta Árborg 147 milljónir króna
Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
