Hbstatz-síðan bauð þá upp á fría tölfræðilýsingu á stórleik FH og Hauka í síðustu umferð Olís-deildarinnar. Hér hefur íslenskur handboltaáhugamaður útbúið aðgengilega síðu þar sem nálgast má helstu tölfræðiupplýsingar bæði á meðan leik stendur sem og eftir hann.
Hbstatz hefur jafnframt fóðrað áhugasama á Twitter-síðu sinni sem skemmtilegum staðreyndum sem lesa má úr tölfræðinni. Þar má meðal annars, auk allra helstu tölfræðiþátta í handbolta, sjá tölfræðieinkunn leikmanna til að finna út hverjir stóðu sig best í vörn og hverjir stóðu sig best í sókn.
Skotnýting, stoðsendingar, varin skot, stolnir boltar, tapaðir boltar og sköpuð skotfæri. Allt þetta og miklu meira má nú sjá frá leik FH og Hauka frá því í gærkvöldi. Hér má sjá tölfræði leiksins.
Það er ljóst að samstarf á milli Handknattleikssambands Íslands og Hbstatz er liggur við mikilvægara en að mynda nýja ríkisstjórn í landinu. Handboltinn þarf nauðsynlega að koma inn í nútímann og bjóða handboltaáhugafólki upp á traustar og haldgóðar upplýsingar um frammistöðu leikmanna í leikjum Olís-deildanna.
Haukar fá rautt og FH 2 mín á 39 mín, 2 mín síðar (7 á 7) kemur 7 mín kafli sem Haukar vinna 6-2. #handbolti#olisdeildin#greiningardeildinpic.twitter.com/2sc3JFqaVS
— HBStatz (@HBSstatz) December 16, 2016
Það er hægt að nálgast tölfræði flestra deildra í Evrópu á auðveldan hátt og hafa þýska, danska og sænska deildin öll tekist stór skref í að auka upplýsingaflæði sitt á síðustu árum. Hér erum við með íslenskt handboltaforrit sem hefur meira að segja komið fram með nýjungar eins og „löglegar stöðvanir“ sem hjálpa til að meta frammistöðu leikmanna í vörn.
Hbstatz-forritið hefur verið í þróun síðustu mánuði og þótt að lengi megi gott bæta þá er enginn vafi á því að það er tilbúið í það verkefni að halda utan um tölfræði handboltaleikja á Íslandi.
Það hefur verið pressa á Handknattleikssambands Íslands að koma með tölfræðiforrit í miklu meira en áratug en einu viðbrögð sambandsins er að segja að þetta sé í vinnslu eða að þetta sé mögulega að detta inn fyrir næstu úrslitakeppni.
Eftir að hafa heyrt sömu fátæklegu svörin í áratug er nokkuð ljóst að HSÍ þarf á hjálp að halda. Þeir eru týndir upp á fjöllum þegar kemur að tölfræði handboltans. Björgunarsveitin Hbstatz er sem betur fer á svæðinu.