Í stuttu máli er internet-meme athæfi, hugmynd, frasi eða einhvers konar mynd, texti, myndband sem dreifist um internetið og líkt er eftir og sett í alls kyns útgáfur hér og þar. Góð dæmi um þekkt meme sem náðu meðal annars dreifingu hér á landi eru að planka og Harlem Shake.
Í dæmi Stefáns Karls er um að ræða lag úr Latabæ sem nefnist We Are Number One. Fyrir rétt rúmum mánuði síðan var þessi útgáfu af laginu sem sjá má hér að neðan sett á YouTube. Frá 1. nóvember til dagsins í dag hafa rétt um ein og hálf milljón manna horft á myndbandið.
Flest þessara myndbanda hafa það sameiginlegt að með þeim fylgir tengill á netsöfnun sem safnar pening til styrktar Stefáni Karli og baráttu hans við krabbamein sem hann var greindur með í haust. Hingað til hafa safnast 92 þúsund dollarar, um tíu milljónir króna. Óhætt er að segja að blússandi gangur sé í söfnuninni en fyrir um þremur vikum var búið að safna fimm milljónum.
Ljóst er að stuðningur þeirra sem búið hafa til þessi myndbönd hefur skipt sköpum. Margir þeirra sem gefið hafa fé í söfnunina segjast hafa fundið hana vegna myndbandana.
„Halló, meme-heimur. Ástæðan fyrir því að við erum samankomin hér í dag er vegna ykkar og hversu vinsælt þetta lag hefur orðið,“ sagði Stefán Karl er hann ávarpaði áhorfendur í upphafi útsendingarinnar. „Okkur finnst frábært hversu vinsælt lagið er orðið og hversu skapandi þið eruð. Ég elska þau öll.“
Stefán Karl ræddi meðal annars við Mána Svavarsson, höfund upphaflega lagsins. Í samræðum þeirra kom fram að Máni hafi fengið óteljandi beiðnir um að veita aðgang að hljóðskrám lagsins til þess auðvelda fólki að útbúa þessi myndbönd. Tilkynntu þeir félagar að þeir myndu fljótlega setja hljóðskrárnar á netið svo hver sem er gæti notast við þær.
Stefán Karl ræddi einnig við félaga sína úr Latabæ, þá Björn Thors, Berg Þór Ingólfsson og Snorra Engilbertsson en þeir voru einmitt með Stefáni Karli í myndbandinu fræga. Til þess að setja punktinn yfir i-ið fluttu þeir lagið í beinni útsendingu líkt og sjá má hér að neðan.
Upprunalega myndbandið