Fingraför Túnisans Anis Amri hafa fundist á hurð vörubílsins sem ekið var inn á jólamarkað í Berlín á mánudagskvöld. Frá þessu greinir Süddeutsche Zeitung.
Umfangsmikil leit stendur nú yfir að hinum 24 ára Amri í Evrópu allri.
Hann hafði verið undir eftirliti yfirvalda fyrr á þessu ári vegna gruns um að hafa lagt á ráðin um að fjármagna kaup á sjálfvirkum skotvopnum með ráni.
Þýskir fjölmiðlar segja manninn 178 sentimetra á hæð og um 78 kíló að þyngd. Hann er með svart hár og brún augu. Hann er talinn hættulegur.
Persónuskilríki mannsins höfðu áður fundist í vörubílnum.
Lögregla gerði húsleit í miðstöð fyrir flóttafólk í Emmerich í Norðurrín-Vestfalíu í morgun, þar sem hann var skráður, en einnig var gerð húsleit í Dortmund.
Amri hafði sótt um hæli í Þýskalandi en umsókninni hafnað. Vísa átti manninum úr landi í sumar en því var frestað vegna ófullnægjandi gagna.
Tólf manns fórust og tugir særðust í árásinni.
Fingraför Amri fundust á hurð vörubílsins

Tengdar fréttir

Anis Amri leitaði upplýsinga um sprengjugerð á netinu
Eftirlýsti Túnisinn á að hafa verið í samskiptum við liðsmenn ISIS í gegnum dulkóðað smáforrit, Telegram Messenger.

Skildi skilríkin eftir í bílnum
Hælisleitandi frá Túnis er grunaður um árásina á jólamarkaðinn í Berlín. Daish-samtökin stæra sig af ódæðinu. Þýsk stjórnvöld hafa ákveðið að fjölga eftirlitsmyndavélum. Vísa átti árásarmanninum úr landi.