Amanda Nunes hefur fengið nóg af mismunun í fjölmiðlaumfjölluninni á milli hennar og Rondu Rousey en Nunes var ekki lengi að afgreiða Rondu í búrinu í nótt.
Var þetta fyrsti bardagi Rondu eftir þrettán mánaða fjarveru en Ronda entist ekki nema í mínútu inn í búrinu áður en dómarinn stöðvaði bardagann og dæmdi Nunes sigurinn.
Sjá einnig:Amanda Nunes kláraði Rondu Rousey auðveldlega
Ronda hefur lítið tjáð sig í fjölmiðlum í kringum bardagann en hún fékk þrjár milljónir dollara fyrir bardagann á meðan Nunes fékk aðeins 200 þúsund dollara.
„Þetta er mín stund, hún átti sinn tíma á toppnum en nú er ég meistarinn. Ég veit að fjölmiðlar elska Rondu en ég hef verið að undirbúa mig fyrir þennan bardaga síðan ég byrjaði í UFC,“ sagði Nunes og bætti við:
„Hún ætti að einbeita sér að leikaraferlinum. Fjölmiðlar ættu að hætta að einblína hana og horfa á þá sem eru í þessari íþrótt af fullum krafti.“
