Körfubolti

Tíunda þrefalda tvennan hjá Harden

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Harden í leiknum í nótt.
Harden í leiknum í nótt. Vísir/AP
James Harden fór hamförum þegar Houston Rockets vann Toronto Raptors, 129-122, í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Harden skoraði 40 stig í leiknum, gaf ellefu stoðsendingar og tók tíu fráköst og náði þar með sinni tíundu þreföldu tvennu á tímabilinu.

Í raun var hann með fjórfalda tvennu þar sem hann tapaði boltanum tíu sinnum í leiknum. Enginn leikmaður hefur verið með aðra eins tölfræði síðan að tapaðir boltar voru teknir inn í tölfræðisamantekt deildarinnar haustið 1977.

Toronto leiddi í upphafi fjórða leikhluta, 99-95, en Houston skoraði þá fimmtán stig í röð og leit aldrei um öxl eftir það.

DeMar DeRozan skoraði 36 stig í leiknum en þetta var í átjánda sinn sem hann skorar minnst 30 stig í leik. Það er persónulegt met hjá honum.



Cleveland vann Phoenix, 120-116, þar sem LeBron James skoraði 28 stig, þar af tólf í fjórða leikhluta er Cleveland náði að síga fram úr.

Kyrie Irving skoraði 27 stig fyrir Cleveland og Kevin Love 25. Mestu munaði um tvær þriggja stiga körfur hjá James þegar um þrjár mínútur voru eftir af leiknum.



Golden State vann Sacramento, 117-106. Stephen Curry skoraði 30 stig og Kevin Durant 28 auk þess sem hann tók sjö fráköst, gaf sex stoðsendingar og varði fjóra bolta.

Úrslit næturinnar:

Brooklyn - Philadelphia 95-105

Milwaukee - Washington 101-107

LA Clippers - Miami 98-86

Toronto - Houston 122-129

Memphis - Utah 88-79

Phoenix - Cleveland 116-120

Portland - Detroit 124-125

Sacramento - Golden State 106-117

LA Lakers - Orlando 111-95

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×