Á heimasíðu Njarðvíkur kemur fram að Vilhjálmur Theodór Jónsson hafi ákveðið að skipta úr ÍR og yfir í Njarðvík og verður hann löglegur í næsta leik sem er á móti botnliði Snæfells.
Vilhjálmur var settur út í kuldann í Seljaskólanum í desember en hann fékk ekki að fara inná í leikjum á móti Þór Þorl. og Njarðvík og spilaði síðan í þrettán mínútur í lokaleiknum á móti Keflavík.
Vilhjálmur Theodór Jónsson var með 4,7 stig og 2,6 fráköst að meðaltali á 14,1 mínútu í leik í fyrri umferðinni.
Hann var hinsvegar með 7,8 stig og 2,8 fráköst að meðaltali í nóvember eða áður en hann var settur út í kuldann eftir að ÍR-ingar fengu til sín Quincy Hankins-Cole.
Vilhjálmur átti fínt tímabil í fyrra þegar hann skoraði 10,7 stig að meðaltali í Domino´s deildinni.