HSÍ og Icelandair þurftu til dæmis að hætta við hópferð á mótið í Frakklandi vegna lítillar þátttöku eins og kom fram á Vísi í gær.
Björgvin Páll Gústavsson, markvörður Íslands númer eitt, er að fara á sitt fjórða heimsmeistaramót en hann er búinn að standa vaktina í marki strákanna okkar síðan á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008. Finnst honum strákarnir vera aðeins að gleymast í byrjun nýs árs eftir stórkostlegt íþróttaár 2016?
„Það má vel vera en við gleymum sjálfum okkur ekki. Við einbeitum okkur fyrst og fremst að okkur sjálfum og nýtum þessi geggjuðu afrek íslenska íþróttafólksins til að keyra okkur áfram hvort sem um ræðir sundstelpurnar, golfið eða fótboltann.

„Sjálfur horfði ég á íþróttaannálinn og allan þennan pakka og það hvatti mig bara til dáða. Við notum þetta sem fyrirmyndir. Sjálfir höfum við verið fyrirmyndir á einhverjum tímapunkti fyrir þessa íþróttamenn líka.“
„Við erum að fara á stórmót og þurfum þá fyrst og fremst að spá í okkur sjálfum. Við erum að fara að berjast fyrir land og þjóð. Við viljum gera þetta vel og því verðum við að halda fókus á okkur sjálfum. Við erum að fara í ansi stórt verkefni eins og á hverju ári,“ segir Björgvin.
Eftir tæpan áratug í atvinnumennskunni er Björgvin Páll á heimleið en hann er búinn að semja við Hauka og gengur í raðir Íslandsmeistaranna í sumar.
„Það er alltaf ákveðinn léttir þegar maður tekur ákvarðanir. Sérstaklega þegar manni líður svona vel með þær eins og þessa ákvörðun,“ segir Björgvin Páll sem er í erfiðum málum með liði sínu Bergischer í þýsku 1. deildinni?
„Það hefur gengið brösulega hjá okkur úti. Við erum neðstir í deildinni og erum í heildina búnir að spila í heildina hræðilega fyrir utan síðustu tvo leiki. Ég er því aðeins að komast í gírinn.“
„Þó ég sé alls ekki farinn að hugsa heim þá er ákveðinn léttir að vera búinn að losa um í hausnum. Núna fyrst og fremst hugsa ég bara um landsliðið. Það er enn þá langt í sumarið og þó ég sé ánægður með ákvörðunina í hjartanu er langt í þetta,“ segir Björgvin Páll Gústavsson.