Slóvenía heldur áfram að hjálpa Íslandi á leið sinni að þriðja sæti B-riðils HM 2017 en það gerði jafntefli við Túnis, 28-28, í æsispennandi leik liðanna í dag. Þetta jafntefli gerir mikið fyrir strákana okkar en er slæmt fyrir Túnis sem fór illa að ráði sínu á lokasprettinum.
Túnis var tveimur mörkum undir, 15-13, í hálfleik en tók svo öll völd á vellinum í seinni hálfleiknum. Slóvenía skoraði fimm mörk á móti tíu mörkum Túnis í byrjun seinni hálfleiks en eftir fimmtán mínútur í þeim síðari var Túnis komið með þriggja marka forskot, 24-21.
Túnisbúar voru í enn betri málum með fjögurra marka forskot, 28-24, þegar rúmar fimm mínútur voru eftir en þá settu Slóvenar í sjötta gír. Slóvenska liðið skoraði síðustu fjögur mörk leiksins og jafnaði Blaz Janc leikinn í 28-28 þegar fimm sekúndur voru eftir.
Þessi úrslit halda vonum Íslands um að ná þriðja sætinu og forðast leik gegn Frökkum í 16 liða úrslitum svo sannarlega á lífi. Ísland á leik gegn Angóla í kvöld og Makedóníu á fimmtudaginn en með sigri í þessum tveimur leikjum verður Ísland í baráttunni um þriðja sætið, að því gefnu að Spánn vinni Makedóníu á morgun.
