„Lýðræðið þróast og við viljum ekki byggja lýðræðið okkar á því að minnsti mögulegi meirihluti hrifsi öll völdin. Það eru þrátt fyrir allt fimmtíu prósent á bak við minnihlutann líka og rúmlega það. Auðvitað á hann réttmætar væntingar til þess að fá að hafa eitthvað um mál að segja.“ Þetta sagði Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við fréttastofu Stöðvar 2.
Ríkisstjórnin hefur lagt til að Sjálfstæðisflokkurinn muni fara með formennsku í fimm nefndanna, Viðreisn í einni og minnihlutinn komi til með að fara með nefndarformennsku í tveimur fastanefndanna, líkt og var einnig gert á síðasta kjörtímabili. Skipað verður í fastanefndir Alþingis þegar það kemur saman að nýju þann 24. janúar næstkomandi.
Sjá einnig: Sigurður telur stjórnarandstöðu geta fengið fjóra nefndarformenn
Logi benti jafnframt á að nú sé þannig ástatt að þingminnihlutinn hafi meirihluta atkvæða að baki sér.
„Ríkisstjórnin gefur það út hvað hún ætlar sér í nefndum og í formennsku þrátt fyrir að það geti strítt gegn þingskapalögum. Ef lítill meirihluti ætlar alltaf að reiða sig á velvilja minnihluta án þess að hafa nokkurn tímann samráð, þá er það auðvitað eitthvað sem gengur ekkert upp.“
Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 að huga þyrfti að ýmsu við skipun fastanefnda.
„Það skiptir máli fyrir ríkisstjórnarflokka að hafa möguleika til þess að stýra starfinu í nefndum. Þarna vegast á ýmis sjónarmið í þessum efnum.“
