„Ef þú ætlar að bjóða hryðjuverkasamtökum að borðinu má alveg eins bjóða Al Nusra og Daesh,“ sagði Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrkja í dag.
Þar vísar hann til samtaka sem kallast nú Jabat Fateh al-Sham og hétu áður Nusra Front og tengjast al-Qaeda annars vegar og Íslamska ríkisins hins vegar.
Cavusoglu heimtaði að Bandaríkin myndu hætta að starfa með „hryðjuverkasamtökum“.
Sýrlenskir Kúrdar hafa verið mjög afkastamiklir gegn Íslamska ríkinu í Sýrlandi og hafa, með stuðningi Bandaríkjanna, lagt undir sig stóran hluta landsins í norðri. Þeir sækja nú gegn borginni Raqqa, sem er höfuðvígi ISIS, en Tyrkir gerðu innrás í Sýrlandi í fyrra, til að stöðva sókn Kúrda til vesturs.
Þeir óttast að velgengni Kúrda í Sýrlandi gæti verið sem olía á eld uppreisnar Kúrda í Tyrklandi, sem staðið hefur yfir í áratugi. Tyrkir hafa ítrekað lýst yfir reiði og vonbrigðum vegna samstarfs Bandaríkjanna við sýrlenska Kúrda.
Fyrr í vikunni birtist yfirlýsing frá Kúrdum í Sýrlandi og bandamönnum þeirra, sem sögðust ekki tengjast Verkamannaflokki Kúrda í Tyrklandi á nokkurn hátt. Yfirlýsingunni var tíst af U.S. Central Command. Tyrkir brugðust reiðir við og spurðu hvort að stjórnvöld í Washington hefðu „tapað vitinu“.
SDF confirms that it has no affiliation or ties to PKK pic.twitter.com/mvENTcBpoQ
— U.S. Central Command (@CENTCOM) January 11, 2017