Innlent

Washington Post: Ísland losaði sig við leiðtoga úr Panama-skjölunum en situr uppi með annan

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson. Vísir/Stefán
„Ísland losaði sig við leiðtoga sem var í Panama-skjölunum en fékk annnan sem var á sama lista“. Svo hljóðar fyrirsögn bandaríska blaðsins Washington Post á umfjöllun sinni um nýja ríkisstjórn á Íslandi.

Þar segir að Panama-skjölin hafi haft mikil áhrif víða um heim en hvergi jafn mikil á Íslandi þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, neyddist til að segja af sér eftir að upp komst um tengsl hans við aflandsfélag.

Í frétt Washington Post segir einnig að þrátt fyrir þann óróa sem varð í samfélaginu eftir að upplýsingar úr Panama-skjölunum voru gerðar upptækar sé Ísland á ný kominn með leiðtoga sem mátti finna upplýsingar um í skjölunum.

Fyrirsögnin í Washington Post
Nafn Bjarna mátti finna í skjölunum í tengslum við eignarhaldsfélagið Falson & Co sem skráð var á Seychelles-eyjum, þekktu skattaskjóli, en Bjarni átti þriðjungshlut í félaginu.

Ólíkt Sigmundi Davíð sagði Bjarni ekki af sér embætti en hann gaf sjálfur þær skýringar að hann hefði talið að félagið væri skráð í Lúxemborg. Félagið var stofnað utan um eignarhald á fasteign í Dubai. Bjarni sagði að gerð hefði verið grein fyrir félaginu á skattaskýrslum sínum sem endurskoðandi staðfesti síðar.

Í greininni er einnig tæpt á uppgangi Pírata eftir afsögn Sigmundar Davíðs sem hefði þó ekki skilað sér í atkvæðum í kosningunum í október. Sjálfstæðisflokkurinn hafi unnið kosningasigur og því sé Bjarni Benediktsson næsti forsætisráðherra Íslands.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×