Miami vann Golden State á heimavelli, 105-102, og batt þar með enda á sjö leikja sigurgöngu Golden State.
Dion Waiters setti niður þriggja stiga körfu þegar 0,6 sekúndur voru eftir af leiknum og tryggði þar með sigur Miami. Hann átti stórleik og skoraði samtals 33 stig í leiknum.
Miami var með undirtökin í leiknum en Kevin Durant náði að jafna metin með troðslu þegar tíu sekúndur voru eftir. En það var ekki nóg.
Stephen Curry náði að taka skot um leið og leiktíminn rann út en það geigaði. Hann var alls með 21 stig, tíu fráköst og átta stoðsendingar en stigahæstur var Durant með 27 stig.
New Orleans vann Cleveland, 124-122, þar sem Terrence Jones var hetjan með 36 stig og ellefu fráköst. Jrue Holiday bætti við 33 stigum og tíu stoðsendingum.
New Orleans var með væna forystu eftir fyrri hálfleikinn en Cleveland náði að minnka hana í þrjú stig þegar ein og hálf mínúta var eftir. En nær komust meistararnir ekki.
Kyrie Irving skilaði ótrúlegum tölum fyrir Cleveland en hann var samtals með 49 stig, þar af 35 í síðari hálfleik. LeBron James var með þrefalda tvennu - 26 stig, tólf stoðsendingar og tíu fráköst.
Oklahoma City Thunder vann Utah, 97-95. Russell Westbrook skoraði sigurkörfu leiksins þegar 1,4 sekúndur voru eftir en hann var alls með 38 stig, tíu fráköst og tíu stoðsendingar.
Þetta var alls 22. þrefalda tvenna Westbrook á tímabilinu en það stefnir í metár hjá honum í þessum efnum.
Úrslit næturinnar:
Charlotte - Washington 99-109
Brooklyn - San Antonio 86-112
Atlanta - LA Clippers 105-115
Miami - Golden State 105-102
Detroit - Sacramento 104-109
Milwaukee - Houston 127-114
New Orleans - Cleveland 124-122
Indiana - NY Knicks 103-109
Utah - Oklahoma City 95-97