Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti hefur beðið Donald Trump Bandaríkjaforseta um aðstoð í baráttunni gegn klerknum Fethullah Gülen og samstarfsmönnum hans.
Tyrklandsstjórn sakar Gülen, sem er í útlegð í Bandaríkjunum, um að bera ábyrgð á misheppnaðri valdaránstilraun í Tyrklandi síðasta sumar.
Þeir Erdogan og Trump ræddu saman í síma í nótt, en í frétt SVT kemur fram að þeir hafi einnig rætt um að skapa svokölluð „örugg svæði“ í Sýrlandi.
Þá ætli Bandaríkjaher, ásamt þeim tyrkneska, að vinna saman að því að hrekja liðsmenn ISIS frá borgunum Bab og Raqqa.
Erdogan á jafnframt að hafa beðið Bandaríkjastjórn að hætta stuðningi sínum við kúrdísku uppreisnarhópana YPG.
Mike Pompeo, yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar CIA, hyggst fara til Tyrklands á morgun þar sem hann mun ræða við fulltrúa Tyrklandsstjórnar, meðal annars um YPG og hreyfingu Gülen.
Erdogan biður Trump um aðstoð

Tengdar fréttir

14 milljarða varnarsamningur milli Breta og Tyrkja
Stjórnvöld í Bretlandi komust í dag að samkomulagi við Tyrki um að þróa herþotur fyrir tyrkneska flugherinn.