Alríkisdómari í Seattle, Bandaríkjunum, hefur lagt bráðabirgðabann á tímabundið bann Donald Trump við komu fólks frá sjö löndum í Mið-Austurlöndum og Afríku til Bandaríkjanna.
Greint er frá þessu á vef fréttastofu breska ríkisútvarpsins BBC. Dómarinn heitir James Robart sem fór gegn fullyrðingum lögmanna bandaríska ríkisins þess efnis að yfirvöld í Bandaríkjunum gæti ekki farið gegn tilskipun Bandaríkjaforseta. Robart tók fram að úrskurður hans gilti um land allt.
Í tilkynningu frá Hvíta húsinu í Bandaríkjunum vegna úrskurðar dómarans kemur fram að ákvörðun Trumps hafi verið lögleg.
Þar er einnig sagt að samkvæmt stjórnarskránni hafi forsetinn vald og beri ábyrgð á því að vernda bandarísku þjóðina.
BBC segir að bandarískum flugfélögum hafi verið tilkynnt að þau megi nú hleypa borgurum frá þessum sjö löndum um borð í sínar flugvélar sem eru á leið til Bandaríkjanna á meðan tekið er á þessum úrskurði dómarans.
Robart hafði takið fyrir stefnu Washington-ríkis en þar er ríkissaksóknari Bob Ferguson sem sagði tilskipun Bandaríkjaforseta ólöglega og fara gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar því hún mismuni fólki eftir trúarbrögðum.
Alríkisdómari lagði bráðabirgðabann á tilskipun Trump
Birgir Olgeirsson skrifar
