Körfubolti

Barkley ekkert fúll út í LeBron: Vann greinilega heimavinnuna sína og "gúglaði“ mig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Charles Barkley og LeBron James hafa staðið í stríði í bandarískum fjölmiðlum í vikunni eftir að James var nóg boðið þegar Barkley kallaði hann vælukjóa sem væri búinn að fá allt upp í hendurnar.

Það hefur ekki gengið nógu vel hjá LeBron James og félögum í Cleveland Cavaliers að undanförnu og James kallaði eftir því að stjórn félagsins myndi styrkja liðið fyrir átökin í úrslitakeppninni.

Charles Barkley sá ummæli frekar sem orð dekurdrengs sem væri búinn að fá allt sem hann vildi og vildi nú enn meira.  

„Cleveland hefur gefið honum allt sem hann vill. Þeir eru með dýrasta lið í sögu NBA. Hann vildi fá J.R. Smith síðasta sumar og þeir borguðu honum. Hann vildi Iman Shumpert síðasta sumar. Þeir fengu Kyle Korver. Hann er besti leikmaður í heimi. Af hverju vill hann fá alla góðu leikmennina? Vill hann ekki keppa? Hann er stórkostlegur leikmaður og þeir eru ríkjandi meistarar," sagði Charles Barkley.

Barkley hefur alltaf gagnrýnt James meira en flestir aðrir og orð hans á dögunum virtist fylla mælinn hjá LeBron. „Ég er orðinn þreyttur á bíta í tunguna á mér. Ég ætla ekki að leyfa honum að vanvirða arfleið mína svona,“ sagði James í samtali við ESPN og rifjaði því næst upp gamlar syndir Barkleys.

Barkley sjálfur er sallarólegur yfir öllu saman og ber engan kala til LeBron James.  ESPN segir frá.

„Ég stend við það sem ég sagði en ætla samt ekki að gera þetta persónulegt. Hann var vælandi í síðustu viku,“ sagði Charles Barkley í úrvarpsþættinum Waddle & Silvy show á ESPN Radio.

„Það er allt í góðu hjá mér. Ég kem mér beint að efnunum og fer aldrei í felur með mína skoðun. Ég mun aldrei persónugera gagnrýni mína á leikmann í NBA-deildinni,“ sagði Barkley.

„Það er ekki ég hef sem hef hent manni í gegnum rúðu. Ég hrækti aldrei á krakka. Ég á ekki ógreidda skuld í Las Vegas. Ég sagði aldrei „Ég er ekki fyrirmynd.“ Ég mætti aldrei á sunnudaginn á Stjörnuleikshelginni því ég var að djamma í Vegas alla helgina,“ sagði LeBron James um Barkley en hvað fannst Sir Charles um þessi orð Lebron:

Barkley sagðist hafa farið að hlæja þegar hann heyrði James telja upp hans gömlu syndir.

„Hann hefur greinilega unnið heimavinnu sína, farið á netið, „gúglað“ mig og fundið eitthvað. Ég átti alveg skilið að vera gagnrýndur fyrir þessa hluti. Þó að eitthvað af þessu sem hann sagði um mig sé hárrétt þá á gagnrýni mín á hann alveg jafnvel við,“ sagði Barkley.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×