Baráttan skilaði sér bara í varnarleikinn
Það verður ekki tekið af báðum liðum að þau mættu með flott hugarfar inní þennan mikilvæga leik. Baráttan og stemningin sem geislaði af liðunum náði þó aldrei lengra en inní varnarleik liðanna. Bæði lið spiluðu fantavörn þar sem menn komust lítt áleiðis þegar keyrt var inní. Njarðvík byrjaði betur og náði að loka á flestar sóknaraðgerðir Hauka, þó með góðri hjálp Haukamanna sem hittu hvorki í þennan heim né annan á löngum köflum í fyrri hálfleik. Gestirnir héldu heimamönnum í þrettán stigum í fyrsta hluta og þó þeir hafi ekki náð að skora mikið sjálfir leiddu þeir verðskuldað.
Í öðrum hluta náðu heimamenn að rétta sinn hlut nokkuð og leiddu í hálfleik, 37-33. Varnarleikur beggja liða var nokkuð þéttur í fyrri hálfleiknum en ég væri verulega ógætinn ef ég myndi ekki einnig minnast á aumingjaskapinn sem sást oft bregða fyrir í sóknarleik beggja liða. Vörnin var þétt jú en leikmenn beggja liða voru einnig að klúðra upplögðum tækifærum sem á venjulegum degi hefði farið ofan í körfuna. Skotnýtingin var skelfileg hjá báðum liðum og það leit út fyrir að allir leikmenn væru samstíga í því að hitna ekki í leiknum.

Seinni hálfleikur var svo eftirmynd þess fyrri; Njarðvíkingar náðu aftur undirtökunum með frábærum varnarleik og ögn betri sóknarleik en andstæðingurinn. Haukamenn héldu áfram að klikka úr ótrúlegustu færum nema núna á móti svæðisvörn að mestu, sem Njarðvíkingar settu á í þeirri von að nýta sér lélega nýtingu heimamanna í þristum. Þetta gekk vel fyrir gestina því Haukar voru einfaldlega allt of ragir við að bæði keyra á vörnina til að skapa eða skjóta opnum skotum sinum, hvað þá hitta þeim þegar leikmönnum tókst að afla hugrekkis til að loks skjóta tuðrunni.
Góður kafli heimamanna í byrjun fjórða hluta gaf til kynna að liðið ætlaði sér að ná í sigurinn. Kristján Leifur Sverrisson og Cedrick Bowen komu sterkir inn og þegar fimm mínútur lifðu leiks var staðan 63-61 og ekki útlit á öðru en að Haukar væru í bílstjórasætinu. Þeir sem hinsvegar þekkja Loga Gunnarsson eitthvað vita að hann situr ekki í aftursæti í bílum, og hvað þá farþegasæti. Hann keyrir sína bíla og þegar síðustu fimm mínúturnar eru spilaðar lætur hann reyna á vélina.

Ekki hlið á stórri hlöðu
Það er varla hægt að finna mikið að varnarleik liðanna; Svæðisvörnin hjá Njarðvík var klárlega ekki sú besta sem ég hef séð en nægilega góð til að koma Haukum úr jafnvægi svo leikmenn hittu vart hlið á stórri hlöðu (liðið með 32% nýtingu heilt yfir og 15% í þristum!). Vörn heimamanna var oftast mjög góð, hreyfanleg og með góðri hjálparvörn en ekki á síðustu fimm mínútum leiksins, þegar Logi pakkaði henni saman uppá eigin spýtur.
Sóknarleikur Njarðvíkur var kannski ekki uppá sitt besta en gerði akkúrat það sem þurfti til að þess að vinna leikinn og líklega allt í samræmi við plan liðsins fyrir leik, þ.e. passa áhlaup Haukanna (sérstaklega þristana) og hafa leikinn jafnan til loka og ná svo einfaldlega í sigurinn. Þarna sýndu Njarðvíkingar áræði og þor, ásamt skynsemi sem prýðir liðið.

Það besta sem kom út úr liði Hauka var af bekknum; Kristján og Bowen áttu spretti á mikilvægum tíma í leiknum en fengu ekki að halda þeim góða kafla áfram. Byrjunarliðið var skelfilegt sóknarlega og gegn svæðisvörn gestanna fá allir falleinkunn. Liðið þarf að finna leiðir til þess að þora að skora því þegar svona seint er liðið á keppnina er alls ekki nóg að mæta með kraft, baráttu og varnarleik, heldur verður liðið að finna einhvern vott af sóknarflæði sem liðsheildin getur notað í jöfnum leikjum – flestir leikirnir sem eftir eru verða akkúrat svona og menn verða að kúpla sig út úr þessum raggeitarstíl sem einkenndi liðið í gær og fara að hafa gaman að því að spila körfubolta, sem og hafa trú á eigin getu og getu liðsins.
Logi frábær en Jóhann bestur
Gott gengi Njarðvíkur eftir breytingarnar miklu heldur áfram. Í gær var það reynsla og hugrekki sem færði þeim stigin tvö. Munurinn á liðinum í gær voru Íslendingarnir innan liðanna; í öðru þeirra voru menn hikandi, ragir og fullir efa um eigið ágæti; í hinu voru reynslumestu mennirnir tilbúnir að leggjast á liðssverðið svo sigur gæti unnist, skeytingarlausir um hvern útkoman yrði – þeir reyndu a.mk. og það var meira en flestir Haukamenn geta stært sig af. Logi var frábær í leiknum, þá sérstaklega á lokamínútum hans.
Besti maður leiksins var hinsvegar Jóhann Ólafsson, sem átti ekki bara góðan sóknarleik heldur frábæran varnarleik. Hann batt liðið saman og átti flotta tvennu, 18 stig, 10 fráköst og samtals 28 framlagspunkta. Liðsheildin gerði nákvæmlega það sem hún átti að gera og þegar á þurfti gerðu einstaklingar innan liðsins akkúrat það sem þeir fá borgað fyrir að gera. Niðurstaðan var einfaldlega sú að fullveðja óhrædd karldýr sigruðu spéhrædda unglinga.