Bíllinn er fjórhjóladrifinn og mjög öflugur, eða 400 hestöfl og með 700 Nm tog. Það dugar honum til að ná hundraðinu á rétt um 4 sekúndum. Hægt verður að fullhlaða bílinn á litlum tveimur klukkustundum með 50kW hleðslustöð. Það sem kemur kannski mest á óvart við þennan I-Pace bíl Jaguar er að svo virðist sem bíllinn sé nokkuð nálægt framleiðslustiginu.
Bíllinn á sýningunni er einskonar tilraunabíll og forveri framleiðslubílsins, en Jaguar er víst tilbúið með eintök af endanlegum framleiðslubílum og hefur nú þegar hafið prófanir á þeim. Endanlegur framleiðslubíll verður sýndur seinna á árinu og tilbúinn á framleiðslulínu Jaguar strax á næsta ári. Því verður ekki langt að bíða eftir þessum bíl.
Forvitnilegt verður að sjá á hvaða verði Jaguar I-Pace mun bjóðast og hvort að hann verður ódýrari kostur en núverandi Tesla Model X jeppinn, sem þykir nokkuð dýr. Ef svo yrði mætti ímynda sér að þessi nýi bíll með Jaguar merki rífi talsverða sölu frá Tesla Model X.
