Fótbolti

Ronaldo heimti Madrídinga úr helju

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ronaldo skoraði tvö mörk undir lokin og tryggði Real Madrid stig.
Ronaldo skoraði tvö mörk undir lokin og tryggði Real Madrid stig. vísir/getty
Annan leikinn í röð náði Real Madrid í stig eftir ævintýralega endurkomu.

Evrópumeistararnir lentu í miklum vandræðum gegn Las Palmas á heimavelli í kvöld en náðu samt að knýja fram jafntefli, 3-3. Á sunnudaginn lentu þeir 2-0 undir gegn Villarreal en unnu samt 2-3 sigur.

Þegar fjórar mínútur voru eftir í leiknum í kvöld var staðan 1-3, Las Palmas í vil. Þá tók Cristiano Ronaldo til sinna ráða.

Portúgalinn, sem hafði skömmu áður fengið gult spjald fyrir leikaraskap, náði í vítaspyrnu sem hann skoraði sjálfur úr. Hann jafnaði svo metin á 89. mínútu með skalla eftir hornspyrnu James Rodríguez og tryggði Real Madrid jafntefli. Lokatölur 3-3.

Isco kom Madrídingum yfir á 8. mínútu en Dominguez Tanausu jafnaði metin í 1-1 aðeins tveimur mínútum síðar og þannig var staðan í hálfleik.

Í upphafi seinni hálfleiks fékk Gareth Bale að líta rauða spjaldið og í kjölfarið komst Las Palmas í 1-3 með mörkum frá Jonathan Viera og Kevin-Prince Boateng. En þessi forysta dugði Las Palmas ekki til sigurs eins og áður sagði.

Real Madrid er einu stigi á eftir toppliði Barcelona en á leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×