Fótbolti

Landsliðsþjálfari Argentínu segir vinnubrögð FIFA furðuleg

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lionel Messi lét þennan aðstoðardómara heyra það.
Lionel Messi lét þennan aðstoðardómara heyra það. Vísir/Getty
Um fátt annað er talað í Argentínu en fjögurra leikja bannið sem Lionel Messi var skyndilega settur í af Alþjóðaknattspyrnusambandinu, FIFA, í gær.

Þetta var tilkynnt aðeins nokkrum klukkutímum fyrir leik liðsins gegn Bólívíu í undankeppni HM 2018. Argentína tapaði leiknum, 2-0, og datt niður í fimmta sæti riðilsins í Suður-Ameríku, en fjögur efstu liðin fara beint á HM.

Sjá einnig: Messi-lausir Argentínumenn töpuðu í þunna loftinu í Bólivíu

Edgardo Bauza, landsliðsþjálfari Argentínu, furðaði sig mjög á tímasetningunni á banni Messi og vinnubrögðum Messi.

Messi er gefið að sök að hafa úthúðað aðstoðardómara í sigri Argentínu á Síle á fimmtudag.

„Þegar orðrómurinn um þetta fór að breiða úr sér fórum við að hafa meiri áhyggjur af þessu. Það virðist furðulegt að það sé hægt að ganga frá öllu saman á einum degi, án þess að við höfum tíma til að áfrýja,“ sagði Bauza. „Nú er formlegt áfrýjunarferli farið af stað,“ bætti hann við.

Gerard Pique, liðsfélagi Messi hjá Barcelona og leikmaður spænska landsliðsins, var einnig hissa á niðurstöðu FIFA.

„Ég er ekki rétti aðilinn til að ræða þær ákvarðanir sem FIFA tekur en mér sýnist það forkastanlegt að Messi hafi fengið fjögurra leikja bann.“

Fjórar umferðir eru eftir af undankeppninni í Suður-Ameríku og að öllu óbreyttu ætti Messi að ná síðasta leik Argentínu í riðlakeppninni, gegn Ekvador þann 10. október næstkomandi.

Sjá einnig: Brassar langfyrstir að tryggja sér sæti á HM og settu met

Brasilía er nú þegar búið að tryggja sér farseðilinn til Rússlands en aðeins fjögur stig skilja að liðin í 2.-6. sæti riðilsins - Kólumbíu, Úrúgvæ, Síle, Argentínu og Ekvador.


Tengdar fréttir

Messi dæmdur í fjögurra leikja bann

Argentínumenn verða án Lionel Messi í næstu fjórum leikjum sínum í undankeppni HM 2018. Messi var í dag dæmdur í fjögurra leikja bann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×