Brasilía varð í nótt fyrsta þjóðin til að tryggja sér farseðilinn á HM 2018 í fótbolta á eftir gestgjöfum Rússlands en það gerðu þeir með sannfærandi 3-0 sigri á Paragvæ í undankeppni Suður-Ameríku.
Philippe Coutinho, Neymar og Marcelo skoruðu mörkin fyrir Brassana sem eru á gríðarlegri siglinu þessi misserin og eru ekki búnir að tapa í undankeppninni í þrettán leikjum í röð eða síðan Síle lagði þá í fyrstu umferð undankeppninnar.
Síðan Brasilía tapaði fyrir Síle 8. október 2015 er liðið búið að vinna tíu leiki og gera þrjú jafntefli án þess að tapa en Brasilíumenn eru langefstir í riðlinum með 33 stig.
Brassar tryggðu sér endanlega sætið á HM í Rússlandi þegar Perú lagði Úrúgvæ skömmu eftir að leik Brasilíu var lokið. Ellefu stigum munar á Brössum og Argentínumönnum sem eru í fimmta sætinu þegar fjórar umferðir eru eftir. Fjögur efstu liðin í undankeppni Suður-Ameríku komast á HM.
Brasilíumenn settu met með því að tryggja sér sæti á HM svona snemma en aldrei áður hefur lið tryggt sér þátttökurétt á HM í mars árið áður en mótið fer fram eftir að fjölgað var í 32 lið fyrir HM 1998 í Frakklandi.
Kólumbía vann Ekvador og er í öðru sæti með 24 stig en Úrúgvæ og Síle koma næst með 23 stig. Argentínumenn eru í vandræðum með 22 stig en Messi og félagar myndu fara í umspil ef undankeppninni lyki eins og staðan er í dag.
Brassar langfyrstir að tryggja sér sæti á HM og settu met
Tómas Þór Þórðarson skrifar

Mest lesið



„Hvað eru menn búnir að láta fífla sig út í?“
Íslenski boltinn




Trans konum bannað að spila í kvennaflokki á Bretlandi
Enski boltinn


