Ruud Gullit hefur lýst yfir áhuga á að þjálfa hollenska landsliðið í fótbolta.
Hollenska liðið er þjálfaralaust eftir að Daley Blind var sagt upp störfum í gær.
Eftir að hafa lent í 3. sæti á HM 2014 hefur hallað undan fæti hjá Hollandi. Liðið komst ekki á EM 2016 og það þarf mikið að gerast ef það ætlar að komast á HM í Rússlandi á næsta ári.
Gullit, sem er einn besti leikmaður Hollands frá upphafi, segir að það væri mikill heiður að fá að þjálfa landsliðið.
„Ég held að allir myndu vilja þetta starf ef þeim væri boðið það. Það er heiður að vera landsliðsþjálfari. Ég er tilbúinn að hjálpa landsliðinu. Enginn veit hvað gerist. Það eru mörg nöfn í umræðunni,“ sagði Gullit í samtali við beIN Sports.
„Ég hef verið nefndur í þessari umræðu. Við sjáum til hvað gerist,“ bætti Gullit við.
Gullit, sem er 54 ára, hefur ekki þjálfað frá árinu 2011 þegar hann stýrði rússneska liðinu Terek Grozny. Gullit hefur einnig stýrt Chelsea, Newcastle United, Feyenoord og Los Angeles Galaxy.
Hollenska knattspyrnusambandið hefur leitað til Louis van Gaal í þjálfaraleitinni en svo gæti farið að hann fengi sjálfur starfið í þriðja sinn.
