Enski boltinn

Gylfi Þór: Draumur að spila fyrir eitt af þessum stóru félögum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson er númer eitt hjá Swansea.
Gylfi Þór Sigurðsson er númer eitt hjá Swansea. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Swansea og íslenska landsliðsins í fótbolta, segir það vera draum sinn að spila fyrir eitt af stærstu fótboltafélögum heims; félög á borð við Bayern München, Real Madrid og Chelsea.

Gylfi Þór er að spila frábærlega undir stjórn Paul Clements hjá Swansea í ensku úrvalsdeildinni en enski knattspyrnustjórinn var áður aðstoðarmaður Carlo Ancelotti hjá Chelsea, Real Madrid og Bayern.

Clement sagði á blaðamannafundi fyrir nokkrum vikum að verri leikmenn en Gylfi hefðu spilað fyrir þessi stórlið og ýjaði þannig að því að íslenski landsliðsmaðurinn væri nógu góður til að spila fyrir stærstu félög Evrópu.

„Auðvitað er gaman að heyra þetta,“ segi Gylfi í viðtali við Goal.com. „Kannski var Clement bara að fylla mig sjálfstrausti en það væri draumur að spila fyrir eitt af þessum stóru félögum.“

„Ef ég held áfram að spila vel fyrir Swansea og Ísland get ég kannski í nánustu framtíð spilað fyrir stórt félag. Ég nýt þess samt að vera einn af aðalmönnunum í liðinu,“ segir Gylfi Þór Sigurðsson.

Íslenski landsliðsmaðurinn, sem er staddur í Parma á Ítalíu með strákunum okkar, er búinn að skora níu mörk í ensku úrvalsdeildinni og leggja upp ellefu en hann er stoðsendingahæstur í deildinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×