Bandaríska sjónvarpsfréttastöðin Fox hefur sagt þáttastjórnandanum Bill O’Reilly upp störfum hjá stöðinni. Reuters greinir frá þessu.
Uppsögnin kemur stuttu eftir að fregnir bárust af því að fimm samstarfskonur O’Reilly hefðu sakað hann um að hafa áreitt sig kynferðislega á vinnustaðnum. Í kjölfarið greiddi O’Reilly, ásamt Fox fyrirtækinu, sáttagreiðslur til kvennanna fimm og námu greiðslurnar þrettán milljónum Bandaríkjadollara.
Sjá: Borgar milljónir eftir ásakanir um kynferðislega áreitni
Málin sem um er að ræða hafa komið upp á undanförnum tveimur áratugum. Samkomulag náðist um sáttagreiðslurnar en í stað þeirra lofa konurnar því að „sækja ekki málin frammi fyrir dómstólum eða segja nánar frá þeim.“
O’Reilly stýrði þættinum „The O'Reilly Factor“ á Fox stöðinni og var um að ræða vinsælasta þátt sjónvarpsstöðvarinnar. Eftir að fréttir bárust af ásökununum gáfu ýmis stórfyrirtæki það út að þau væru hætt að kaupa auglýsingar hjá Fox á tímum þar sem þáttur O'Reilly var á dagskrá.
Sjá: Stórfyrirtæki neita að auglýsa hjá Fox
Í yfirlýsingu sem O’Reilly birti á heimasíðu sinni sagðist hann hafa innt af hendi sáttagreiðslurnar til að hlífa börnum sínum.
„Á tuttugu ára starfsferli mínum hjá Fox sjónvarpsfréttastöðinni, hefur enginn kvartað vegna mín til mannauðsdeildar Fox. Ég er faðir og mér þykir vænt um börnin mín og þess vegna hef ég ákveðið að ganga frá þessum sáttagreiðslum, til þess að hlífa þeim.“
Fox búið að reka Bill O'Reilly

Tengdar fréttir

Borgar milljónir eftir ásakanir um kynferðislega áreitni
Sjónvarpsmaðurinn Bill O'Reilly er sakaður um að hafa kynferðislega áreitt fimm samstarfskonur og hefur borgað 13 milljónir Bandaríkjadollara í sáttagreiðslur.

Stórfyrirtæki neita að auglýsa hjá Fox vegna fregna af áreitni O'Reilly
Ýmis fyrirtæki hafa ákveðið að auglýsa ekki hjá Fox sjónvarpsfréttastöðinni vegna fregna af kynferðislegri áreitni Bill O'Reilly í garð samstarfskvenna.

Fær meira áhorf eftir ásakanir um kynferðislega áreitni
Ásakanir um að hafa áreitt samstarfsmenn kynferðislega og fréttir um að hafa greitt viðkomandi samstarfsmönnum til að greina ekki frá áreitninni hafa ekki haft áhrif á áhorf á þátt bandaríska fréttamannsins Bill O'Reilly, The O'Reilly Factor.