Besti bardagamaðurinn í UFC pund fyrir pund, Demetrious Johnson, segist vera til í að berjast við Conor McGregor sem er í öðru sæti á pund fyrir pund listanum.
Johnson er nýbúinn að verja titil sinn í fluguvigtinni í tíunda sinn en það er metjöfnun hjá UFC.
Þó svo Johnson sé geggjaður bardagamaður þá er hann ekkert sérstaklega vinsæll og fær ekki þá peninga sem maður í hans stöðu ætti að fá.
Áhorfið á bardaga hans um páskana var það lélegasta á Fox-sjónvarpsstöðinni síðan stöðin byrjaði að sýna frá UFC.
Johnson er greinilega búinn að fá nóg og hefur nú óskað eftir bardaga gegn Conor. Það er leiðin til þess að komast í alvöru peninga hjá UFC.
Það eru tveir flokkar á milli þessara bardagamanna og Johnson segist vera til í að fara upp í fjaðurvigt. Þar var Conor meistari áður en hann fór upp í léttvigtina
„Ég myndi aldrei komast upp í léttvigtarþyngd en er til í að fara í fjaðurvigtarþyngd. Það ætti að vera auðveldara að koma þessum bardaga á en bardaga á milli Conor og Mayweather,“ sagði Johnson.
Nú er beðið viðbragða frá Conor við þessari uppástungu Johnson.
Sá besti er til í að berjast við Conor

Tengdar fréttir

Demetrious Johnson jafnaði met Anderson Silva
Fluguvigtarmeistarinn Demetrious Johnson jafnaði met Anderson Silva yfir flestar titilvarnir í sögu UFC. Johnson sigraði Wilson Reis með uppgjafartaki í 3. lotu.

Fáir hafa áhuga á þeim besta hjá UFC
Demetrious "Mighty Mouse“ Johnson vann sögulegan sigur í búrinu hjá UFC um helgina en sögulega fáir höfðu áhuga á að sjá hann ná þeim áfanga.