Innlent

Þingmaður Sjálfstæðisflokks styður ekki óbreytta tillögu um hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna

Birgir Olgeirsson skrifar
Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur áhyggjur af uppbyggingu ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni.
Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur áhyggjur af uppbyggingu ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni. Vísir/Anton
„Það þarf að finna einhverja lausn á þessu,“ segir Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem segist í samtali við Vísi ekki styðja tillögur ríkisstjórnarinnar um hækkun virðisauka á ferðaþjónustuna í óbreyttri mynd.

Njáll var í Vikulokunum á Rás 1 í dag þar sem hann greindi frá áhyggjum sínum vegna þessarar tillögu ríkisstjórnarinnar. Verði hún að veruleika verða ferðaþjónustufyrirtæki hækkuð upp í nýtt virðisaukaskattþrep, úr 11 prósentum í 22,5 prósent, frá og með júlí á næsta ári.

„Ég hef miklar áhyggjur varðandi ferðaþjónustuna á landsbyggðinni sem er í uppbyggingar fasa og á allt öðrum stað en á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Njáll Trausti í samtali við Vísi um málið.

Hann telur líka að þessi hækkun muni skapa enn meiri vanda þegar kemur að svartri atvinnustarfsemi í ferðaþjónustunni.

„Ég hef líka áhyggjur af því vegna gengisstyrkingarinnar sem hefur orðið og síðan bætist þetta ofan á,“ segir Njáll Trausti.

Hann situr í fjárlaganefnd og hefur hún óskað eftir umsögnum um þessa tillögu eins og hún birtist í fjármálaáætlun. Búist er við að sú áætlun verði afgreidd úr nefnd fyrir sumarfríið og muni síðan koma inn á fjárlög næstkomandi haust.

Því er töluverður tími til stefnu að sögn Njáls og allt ferlið enn á umræðu stigi og því ráðrúm til að bæta þessa tillögu með hliðsjónum af þeim áhyggjum sem hefur verið varpað fram.

Samtök ferðaþjónustunnar hafa til að mynda mótmælt þessari tillögu harðlega.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, sagði fyrr í mánuðinum ekki séu lengur rök fyrir því að stærsta atvinnugreinin sé á undanþágu varðandi virðisaukaskatt.


Tengdar fréttir

Náttúrupassi óþarfur vegna skattahækkunar á ferðaþjónustu

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamálaráðherra, segir að ekki sé ástæða til þess að endurnýta hugmyndina um náttúrupassa, meðal annars vegna þess að ríkisstjórnin hyggst færa ferðaþjónustuna í almennt þrep virðisaukaskatts.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×