Paulo Dybala hefur framlengt samning sinn við Juventus til ársins 2022.
Það er óhætt að segja að vikan hafi verið eftirminnileg hjá Dybala. Á þriðjudaginn skoraði hann tvö mörk í 3-0 sigri Juventus á Barcelona í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu og í dag skrifaði hann svo undir nýjan samning við ítalska stórliðið.
Argentínski framherjinn kom til Juventus frá Palermo sumarið 2015 og vann bæði deild og bikar á sínu fyrsta tímabili hjá Tórínó-liðinu.
Dybala, sem er 23 ára, hefur skorað 39 mörk og gefið 16 stoðsendingar í 82 leikjum fyrir Juventus.
Þrátt fyrir að hafa átt góðu gengi að fagna á Ítalíu undanfarin ár hefur Dybala aðeins leikið sex landsleiki fyrir Argentínu.

