Þorsteinn Víglundsson, húsnæðismálaráðherra, og Guðmundur Arnar Guðmundsson, markaðsstjóri Íslandsbanka sitja fyrir svörum í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Við ræðum erfiðan fasteignamarkað fyrir kaupendur, fokdýran leigumarkað og umdeilda auglýsingaherferð Íslandsbanka sem birtist fyrst í Fréttablaðinu í gær, en hún hefur fengið afar misjafna dóma, meðal annars á samfélagsmiðlum. Herferðin á að höfða til ungs fólks sem er að stíga sín fyrstu skref á húsnæðismarkaði; ekki gefast upp, þetta er hægt ef þú hefur plan.
Mikael Torfason, rithöfundur, benti þannig á að skilaboð bankans væru þau að það væri ekkert að á fasteignamarkaði, heldur að vandamálið væri unga fólkið sjálft. Margir tóku undir með Mikael, á meðan aðrir voru honum ósammála, til að mynda Andrés Jónsson, almannatengill, sem sagði herferðina raunar það besta sem hann hefði séð lengi.
Sjá einnig: Metdagur í Íslandsbanka í gær
Margir hafa lýst yfir þungum áhyggjum af þróun húsnæðismarkaðar hér á landi undanfarin misseri og skýrt ákall er um að ríki og sveitarfélög setji sér skýra stefnu í málinu.
Ekki missa af kvöldfréttum Stöðvar 2, sem hefjast á slaginu 18.30 að vanda.

