Viðskipti innlent

Samtök ferðaþjónustunnar fengu ekki umsagnarbeiðni vegna fjármálaáætlunar

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri SAF
Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri SAF VÍSIR/ERNIR
Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) furða sig á því að þau hafi ekki verið ein þeirra sem beðin voru um umsögn vegna fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar. Í henni er gert ráð fyrir hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu.

Fjárlaganefnd kallaði eftir umsögnum ýmissa aðila um fjármálaáætlunina síðastliðinn föstudag. Á þeim lista var SAF hvergi að sjá. Eftir kvörtun í gær var þeim bætt á listann.

„Samtökin gera alvarlegar athugasemdir við það eitt og sér en það sem er ekki síður alvarlegt er að umsagnarfresturinn er afskaplega stuttur og óraunhæfur, eða til föstudagsins 21. apríl, strax eftir páskafrí og sumardaginn fyrsta. Kemur hinn skammi frestur sér því verulega illa fyrir SAF, sem og aðra umsagnaraðila,“ segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri SAF.

„Áætlaðar auknar álögur á greinina með væntum virðisaukaskatts­hækkunum nema um 17 milljörðum, hvorki meira né minna,“ segir Helga. „Málsmeðferð þessi og vinnubrögð að baki tillögunni eru, vægt til orða tekið, ekki boðleg af hálfu ríkisstjórnar og Alþingis og síst til þess fallin að auka á virðingu gagnvart þessum annars mikilvægu stofnunum ríkisvaldsins.“


Tengdar fréttir

Stóraukin útgjöld en krafa um aðhald

Fjármála- og efnahagsráðherra kynnti fjármálaáætlun ríkisins til ársins 2022 í gær. Gert er ráð fyrir byggingu nýs Landspítala, kaupum á þremur nýjum þyrlum fyrir gæsluna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×